top of page

Þögn / Silence


Sýningin Þögn í Listasafni Reykjavíkur var tilraun til að svara þeirri hneigð listasafna að leita í æsilist (sensation). Þögn hefur margskonar merkingu í samfélagi okkar. Í umræðu merkir hún hlutleysi eða afstöðuleysi og í daglegum samskiptum kann hún að merkja áhugaleysi og jafnvel lævísa stjórnsemi. Slík þögn er þó eingöngu á yfirborðinu því að eðli þagnar er merkingarlaus. Þögn er innvortis ástand, þegar manneskjan er nóg í sjálfri sér og hefur engar væntingar til hins ytra. Í þögninni er ekkert en hún er samt ekki tóm. Þögnin er full af engu.

Í auga hvirfilbylsins

„Shut up! Shut up! ... Shut up!" Robert De Niro sem Jake LaMotta í Raging Bull

Kvikmyndin Raging Bull er ein sú magnaðasta sem ég hef augum litið. Hún er ruddaleg og ofbeldisfull og er sjálfhverf söguhetjan, boxarinn Jake LaMotta, sem Robert De Niro túlkar af einstakri snilld, einhver leiðinlegasti karakter sem fyrirfinnst í kvikmyndasögunni. Boxatriði myndarinnar eru stórbrotin, sérstaklega hatröm átök LaMotta og Sugar Ray Robinson. Í annarri viðureign þeirra (þeirri fyrstu sem sést á tjaldinu) leggja þeir allt undir. Þeir skiptast á að hafa yfirhöndina. En þegar bjallan klingir í áttundu lotu ræðst LaMotta að andstæðingi sínum af áfergju. Hann slær sem óður maður og með kvikmyndavélina í nærmynd má sjá á einbeittu en dýrslegu andlitinu að hann ætlar að gera út um leikinn. Í eitt augnablik, eins og til að elta höggin, hverfur kvikmyndavélin frá andliti hans og út í myrkur áhorfendasalarins. Ljósglætur renna hjá, líkt og þegar maður situr í neðanjarðarlest og starir út um gluggann, og aftur hverfur myndin í myrkur. Maður veit að höggið kemur en augnablikið á milli orsakar og afleiðingar er sem tímalaust tóm á milli tveggja hugsana. En jafn skyndilega og hver önnur hugsun birtist andlit La Motta aftur á tjaldinu, nú frá öðru sjónarhorni. Höggið skellur á Robinson sem fellur út úr hringnum. LaMotta bakkar út í horn. Myndskeiðið fer í hægagang og umhverfið hljóðnar. Það heyrist daufur ómur af hrópum áhorfenda. LaMotta fnæsir og slær saman hönskum. Allt er kyrrt og sigur bráðlynda bolans er í höfn.

Ég hef ekki tölu yfir það hve oft ég hef horft á þetta atriði. En ég hef spólað á það aftur og aftur á DVD-tækinu mínu til að minna mig á að í hringiðu geðshræringa, ofbeldis og ringulreiðar er þögn.

Þögn er sjaldan gert hátt undir höfði í menningarheimi okkar þar sem sjónrænt og tilfinningalegt áreiti er mikið og hvarvetna eru ímyndir og orð sem kalla eftir athygli svo margur á í stökustu vandræðum með að hvíla huga sinn á einum stað. Að sitja kyrr, án þess að gera nokkurn skapaðan hlut í fáeinar mínútur, kann jafnvel að reynast mönnum ofviða. Að þessu leyti er þögn annarskonar áreiti en þau orð og ímyndir sem leita til okkar í umhverfinu. Áreiti þagnar er innvortis þar sem hún kallar eftir aðgerðaleysi og er þess vegna á skjön við viðtekin gildi samfélagsins. Samt er hún forsenda þess að geta meðtekið upplýsingar og upplifað undur og fegurð með galopnum skilningarvitum.

Harpa Árnadóttir

Fyrir sýninguna Þögn hafa fjórir annálaðir myndlistarmenn, þau Finnbogi Pétursson, Finnur Arnar Arnarson, Haraldur Jónsson og Harpa Árnadóttir gefið sig á vald þagnar og unnið listaverk þess efnis. Þau nálgast viðfangsefnið á ólíkan hátt en markmið þeirra er sameiginlegt: Að skapa vettvang þar sem þögn ríkir.

Haralsur Jónsson, Myrkur

Haraldur Jónsson hefur löngum fengist við þögn í formi hins ósýnilega og notast við hljóðeinangrunarefni í skúlptúr og innsetningar. Hann vinnur þannig markvisst með upplifun á þögn í rými. Myrkur er Haraldi hugleikið, þar sem tómarúmið er algert og „ekkert" er, sem hefur að sama skapi ótakmarkaða möguleika til að verða „eitthvað". Framlag Haraldar til Þagnar nefnist Hella og er veggverk úr hljóðeinangrandi efni og hefur þar af leiðandi bein áhrif á hljómburð í rýminu. Það hefur einnig formræna vísun til svæðisins en verkið er formað eftir grunnmynd Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsinu, sem arkitektúr horfinn í svarthol.

Harpa Árnadóttir vakti snemma athygli fyrir hæglát málverk með blæbrigðum í hvítu sem eru þögult ferli í sjálfu sér, líkt og andardráttur. Titill innsetningar Hörpu, Þau hanga á himnakrókunum, (tárin) / stend um stund undir regnþaki, er til merkis um ljóðræna nálgun listakonunnar. En Harpa leitar á náðir naumhyggju (minimalism) og búa verk hennar, málverk, textar, skúlptúrar og glerverk, yfir hverfulleika og tilfinningalegri kyrrð.

Þögn í verkum Finns Arnars Arnarsonar er fengin úr hversdagsleikanum. Í vikunni fyrir sýningaropnun flutti hann inn í sýningarsalinn, svaf þar og át kost sinn í einveru. Á opnunardaginn flutti hann á brott en skildi eftir slóð sína, leifar daglegra athafna eða ósýnilegra drauma sem enn kunna að svífa í loftinu. Hér er þögnin af tilvistarlegum toga, ára þess sem var en er ekki lengur.

Finnbogi Pétursson er flestum þekktur fyrir umfangsmikil hljóð og rýmisverk sem vísa til náttúruafla. Þögn í verkum Finnboga skapast á milli hljóðs og hreyfingar, á milli orsakar og afleiðingar. Finnbogi er tæknirómantíker (techno-romantic) og teflir saman náttúrulegum og tæknilegum eða vélrænum mikilfengleika (androgynous sublime). Verk hans, Stund, lýtur sömu lögmálum og camera obscura, sem er frumaðferð ljósmyndatækninnar. Verkið er uppsett í samskonar mælieiningum og tíðkast í kvikmyndagerð, þ.e. 24 rammar á sekúndu, og er hugsað sem myndgerð tímaeining, eða kyrrðarstund.

Listaverkin á sýningunni eru staðbundin. Þau klæða rýmið hjúp sem verður sem griðastaður frá hringiðu daglegs amsturs og ytra áreitis. Og líkt og bráðlyndi bolinn í hlutlausu horni boxhringsins, stöndum við í auga hvirfilbylsins.

Jón B. K, Ransu

Finnbogi Pétursson
Finnur Arnar Arnarsson

Exhibitions
bottom of page