Akríl á MDF
ÓP / OP
Áhugi minn á ópinu og opinu kemur til vegna tilraunar sem ég gerði á vinnustofu minni sumarið 2012. Ég hafði verið að sýna verk sem ég kallaði Tómt og miðuðu að því að beina sjónum að tómum fleti í málverki. Til þess að afmarka tóma flötinn notaði ég skynvillandi liti og formfræði sem ertu augun þannig að þau leituðu frekar á auðan flötinn á milli formanna. Tilraunin fólst í því að sitja um stund og stara á auðan flöt innan skynvillandi ramma og fylgjast með hugsunum og tilfinningum sem því fylgdu. Hugmyndin var að gera þetta reglulega allt sumarið en ég hætti fljótlega þegar hugsanirnar og ímyndirnar sem komu upp reyndust frekar sprottnar af óþægindum, örvæntingu og pirringi.
Ég hóf umsvifalaust að kanna list sem er sprottin af þannig kenndum og tengdi reynslu mína af tilrauninni fyrst við Ópið eftir Edward Munch og hryllinginn sem listamálarinn myndgerði með rauðglóandi himni sem bylgjast eins og öldur á úthafi og mjósleginni veru sem stendur í forgrunni myndarinnar, heldur um andlitt sitt og starir fram kringlóttum hrollvekjandi augum og með galopinn munninn.
Einnig tengdi ég reynslu mína af tilrauninni við tækni Alfreds Hitchcock í kvikmyndinni Vertigo, hvernig hann formgerði lofthræðslu með því að súma fjærsta hluta myndarinnar fram í flötinn (e. dollyzoom) þannig að maður einblíni ekki á myndina heldur á hyldýpið. Kvikmyndin Psycho reyndist mér síðan skýrari táknmynd sakir þess að Hitchcock notar þar hvort tveggja, skynvillandi myndatökur og tryllingsleg óp.
Ópið sem Munch málaði tjáir fyrst og fremst örvæntingu listamannsins yfir eigin hugrenningum og skynjunum. „Það voru blóð og eldtungur yfir svarbláum firðinum og borginni,“ ritar listmálarinn í dagbók sína 22. janúar 1892, og bætir svo við; „[...] en ég stóð nötrandi af örvæntingu – og ég fann fyrir óendanlegu ópi streyma í gegnum náttúruna.“ Munch varð að mála þessa mynd, fanga ópið sem hann heyrði ekki, heldur skynjaði. Hann varð að mála hana til að halda geðheilsunni, til að geta horft í gegnum ópið og í hjarta hryllingsins.
Í Psycho koma ópið og opið fyrst við sögu í sturtu á Bates-mótelinu, þegar Norman, geðtruflaður móteleigandi, stingur kviknakinn mótelgest, Marion, með eldhúshníf. Við heyrum ópið blandað skerandi hljómi fiðlustrengja. Þeir magna upp ópið sem þagnar svo rétt áður en Marion rífur í sturtuhengið. Þá dregur hún andann í hinsta sinn og fellur á botn baðkarsins, augun stara á myndavélina sem beinist umsvifalaust frá fórnarlambinu og að opnu niðurfallinu. Þar hverfur myndin í myrkur.
Í annað skipti notar Hitchcock óp og op þegar einkaspæjarinn Milton Arbogast er að svipast um í húsi „móðurinnar“. Efst í stiganum slær Norman til hans hnífnum, sker í holdið, svo hann fellur niður stigann. Alla leið niður stigann er myndavélinni beint að opnum munni fórnarlambsins undir sama skerandi fiðluleik og hljómaði í sturtuatriðinu. Það er ekki fyrr en hann skellur á gólfið að myndavélin hverfur frá opnum munninum og beinist að hnífnum. Þá fyrst heyrum við örvæntingarfullt óp Arbogasts.
Hryllingurinn sem um ræðir er sá sami og franski sálfræðingurinn Jacques Lacan lýsti svo vel þegar hann starði ofan í galopinn munn og sá í honum hryllingslegt hyldýpi. Hyldýpið er staður frekar en hlutur því það er ávallt utan seilingar (Lacan notaðist samt við hugtakið Hluturinn (þ. das Ding) þegar hann fjallaði um hyldýpið). Hyldýpið býr yfir óbærilegu aðdráttarafli sem er í senn kæfandi nánd og óbærileg fjarvera. Samkvæmt Lacan tákngerum við upplifun okkar á hyldýpinu, annars vegar með myndum sem vísa til tóms og hins vegar með hryllingslegum ímyndum. Þetta hvort tveggja má finna í málverki Edvards Munch og í kvikmynd Alfred Hitchcocks.
Í sýningunni Óp/Op sæki ég ákveðnar fyrirmyndir sem tengjast kenningum Jacques Lacan sem og táknmyndum Edvards Munch og Alfreds Hitchcock, því Munch og Hitchcock virðast hafa áttað sig á aðdráttarafli hyldýpisins og tákngert það þannig að við gætum notið þess. Við horfumst í augu við hryllinginn en njótum fegurðarinnar í myndunum. Hún er hulan sem breiðir yfir hyldýpið.
Jón B. K. Ransu
Heimildir
Jacques Lacan, The Ethics of Psychoanalysis, W.W. Norton & Company, New York, 1986.
Edward Munch, The Private Journals of Edward Munch, The University of Wisconsin Press, Madison, 2005.
Lokasetningin er tilvitnun í Rainer Maria Rilke: „Fegurðin er hinsta hulan sem breiðir yfir hryllinginn