top of page

Virðingarvottur til staðgengilsins

Homage to the Proxy

Homage to the proxy is an ongoing series, a dialogue between minimal painting and action,  based on the film “The Hudsucker Proxy” (Joel Cohen, 1994) that touches on gestalt psychology that influenced early modernists of geometric art, especially Bauhaus artists. 
I use different fragments from the film to influence the approach to the paintings and distort the autonomy of the circular form, thus creating a proxy for the purity of form.
The title of the series refers both to the film as well as investigations of Bauhaus artist and father of Op art, Josef Albers , “Homage to the square”.

 

Hringur er ekki bara hringur

 

Árið er 1958. Í póstþjónustunni djúpt í kjallaranum á 45 hæða (að svalahæð meðtalinni) háhýsi Hudsucker-samsteypunnar í New York borg er Norville Barnes að flokka póst. Norville er nýr starfsmaður samsteypunnar, nýútskrifaður úr viðskiptadeild Muncie-háskólans í Indiana og hann er kominn til heimsborgarinnar til að láta draum sinn rætast. Norville er með hugmynd sem hann ætlar að nota til að klífa metorðastigann, allar 45 hæðirnar (að svalahæð meðtalinni) og hrinda henni í framkvæmd. Svo heppilega vill til að á sama tíma og Norville Barnes er að flokka póst stekkur forstjóri Hudsucker-samsteypunnar, sjálfur Waring Hudsucker, út um gluggann af efstu hæð skýjakljúfsins og fellur niður allar 45 hæðirnar (að svalahæð meðtalinni) og endar þannig líf sitt „sem abstrakt expressjónísk klessa á steinsteyptri stéttinni“[1]. Fyrirtækið vantar þar af leiðandi nýjan forstjóra.

Í kjölfar sjálfsmorðs forstjórans er haldinn stjórnarfundur þar sem stjórnin ákveður sviksamlegt leynimakk. Hún ætlar að ráða einhvern heimskingja í forstjórastólinn sem myndi valda því að hlutabréf fyrirtækisins féllu, stjórnin gæti þá keypt hlutabréfin fyrir slikk, gert heimskingjann að blóraböggli, rekið hann og endurreist fyrirtækið og þannig grætt fúlgu fjár.

Víkur þá sögunni aftur að Norville Barnes sem er ennþá að flokka póst. Norville er sendur upp á efstu hæð á skrifstofu Sidney J. Mussburger, stjórnarformanns Hudsucker-samsteypunnar, til að færa honum bréf. Norville sér þar kjörið tækifæri til að kynna honum hugmynd sína, sem hann og gerir með því að teygja sig niður í skó sinn, draga þar upp blaðsnepil og reka hann framan í andlit stjórnarformannsins. Á sneplinum er teikning, óhlutbundin mynd, hringur dreginn með mjóum línum um mitt blaðið eins og til að afmarka „ekkert“ innan flatarins. Það er eins og við manninn mælt: Mussburger ræður Norville Barnes á staðnum sem nýjan forstjóra Hudsucker-samsteypunnar, ekki vegna þess að hann sjái í honum efnilegan stjórnanda heldur vegna þess að hann álítur hann vera heimskingjann sem stjórninni vantar fyrir ráðabrugg sitt.

Til að gera langa sögu stutta falla hlutabréf samsteypunnar eftir ráðningu á Norville Barnes, óþekktum viðskiptafræðingi og heimskingja. Áætlun stjórnarinnar er við það að ganga eftir, allt þar til Norville hrindir hugmynd sinni í framkvæmd og raungerir teikningu sína sem reynist vera fyrirmynd húla-hopp hringja. Stjórninni að óvörum verður húla-hoppið heilmikið fár um gervöll Bandaríkin. Hlutabréf Hudsucker-samsteypunnar rjúka þar með upp úr öllu valdi og ráðabrugg stjórnarinnar fer fyrir bí.

Þannig er söguþráður kvikmyndarinnar The Hudsucker Proxy eftir bræðurna Joel og Ethan Coen. Þetta er ekki þeirra frægasta mynd en hún er svo sannarlega upplýsandi fyrir hvern þann sem veltir fyrir sér gildi teikninga og málverks. Hún fjallar samt ekki um teikningar og málverk, að minnsta kosti ekki með beinum hætti. En hún fjallar um sams konar vandamál sem viðkemur þeim: Um hneigð manna til að horfa á teikningu og málverk sem mynd innan ramma myndflatar.

Breski listmálarinn David Hockney sagði eitt sinn: „Að kenna einhverjum að teikna er að kenna honum að horfa“.[2] Áhorfið felst í því að horfa út fyrir formgerð teikningarinnar. Að horfa á teikninguna sem teikningu en ekki sem mynd af einhverju sem hefur verið teiknað. Þegar Norville Barnes teiknaði hring horfði hann ekki bara á formgerðina eða mynd hlutarins. Hann horfði á möguleika formgerðarinnar.

Bandaríski listmálarinn og kennslufræðingurinn Mira Schor hefur lýst áhyggjum sínum yfir því að jafnvel fólk sem hafi atvinnu af því að rýna í listir hafi takmarkaða getu til að lesa í málverk (og teikningar). Hún talar um vanþekkingu á málverkalæsi og veltir því fyrir sér hvort hægt sé að finna lækningu við „málverkaólæsinu“ (e. Painting Illiteracy Syndrome). Hún telur besta ráðið vera menntun í formi eins konar meðferðaráætlunar í því að læra að horfa og lesa málverk án þess að binda sig við listasöguna. Aðeins að horfa og lesa.[3] Formgerðin er aðeins einn hluti af því sem ætti að vera til skoðunar. Málverkalæsi er ekki það sama og myndlæsi vegna þess að málverk þarf ekki að vera mynd. Og það sama á við um teikningu.Hún er ekki endilega mynd. Í teikningum Ingólfs Arnarssonar sjáum við t.d. grunnatriði teikningarinnar sjálfrar. Hann teiknar með blýanti á blað og gerir beitingu áhaldsins sýnilegt á blaðinu. Enga mynd er að sjá. Í besta falli getum við talað um áferð og blæbrigði á pappírnum, en ekki mynd.  Fjarvera myndarinnar er svo undirstrikuð með framsetningu teikningarinnar. Pappírinn liggur að veggnum, sleiktur eins og teikningin sé hluti af honum, í „samræðu við arkitektúrinn“[4].

Til er vinsælt orðatiltæki, upprunnið í Frakklandi, sem á við um umrætt vandamál: „Heimskur sem málari“ (f. bête comme un peintre). Orðatiltækið vísar til formfræðilegrar og sjónrænnar þröngsýni sem er innan ramma málverks og er þar af leiðandi tengt sýn listmálarans. En það er einmitt sú þröngsýni og háði Sidney J. Mussburger þegar hann horfði á teiknaðan hring eftir Norville Barnes og sá eingöngu sem mynd af hring. Hefði Hr. Mussburger horft út fyrir formgerð teikningarinnar hefði hann vafalaust áttað sig á möguleikunum sem hringurinn hefur í för með sér og skilið að hringur er ekki bara hringur. Þá hefði hann heldur ekki tekið áhættuna á að ráða hugmyndasmiðinn Norville Barnes sem forstjóra Hudsucker-samsteypunnar. Að minnsta kosti ekki í þeim tilgangi sem lá að baki ráðningunni.

 

Jón B. K. Ransu

 

 

 

 

Heimildir

Coen, Joel, The Hudsucker Proxy, kvikmynd, Warner Bros., Burbank, 1994.

Einar Falur Ingólfsson, „Teikningar í breyttu rými“, Morgunblaðið, 4. apríl 2009.

Gayford, Martin, A Bigger Message. Conversations with David Hockney, Thames & Hudson Ltd., London, 2011.

Schor, Mira, Wet: On Painting, Feminism and Art Culture, Duke University Press, Durham, 1999.

 

 

 

 

[1] Setning sem Sidney J. Messburger segir í kjölfar sjálfsmoðs Waring Hudsuckers: Joel Coen, The Hudsucker Proxy, Kvikmynd, Warner Bros., Burbank, 1994.

[2] Martin Gayford, A Bigger Message. Conversations with David Hockney, Thames & Hudson Ltd., London, 2011, bls. 190. Þýð. höfundur.

[3] Mira Schor, „Course Proposal“,Wet: On Painting, Feminism, and Art Culture, Duke University Press, Durham, 1999, bls. 170 - 171.

[4] Einar Falur Ingólfsson, „Teikningar í breyttu rými“, Morgunblaðið, 4.apríl, 2009, bls. 52.

bottom of page